Velkomin á heimasíðu Björgunarsveitar Biskupstungna

      Bjarkarbraut  2    Reykholt   801  Selfoss      S:486-8766       Bílasími    S:855-5005     Útkall 112       Kallmerki Biskup

Home
Up
Dósadagatal 2009
Útköll Sveitarinnar
Myndasíða
Félagatal
Unglingadeildin Greipur
Gestabók
Tenglar
Hafið samband

Björgunarsveit Biskupstungna

Þættir úr tveggja áratuga sögu

[Flutt á afmælishátíð að Bjarkarbraut 1 12. 3. 2005]

Góðir samkomugestir.

Í ársbyrjun 1985 komst hreppsnefnd Biskupstungnahrepp að þeirri niðurstöðu að rétt væri að stofna björgunarsveit í Biskupstungum.  Af gögnum má ráða að helsti hvatinn að því hafi verið að farið var að leita hófanna um fjárstuðning úr hreppssjóði til styrktar björgunarsveit, sem “aðallega starfar í Hrunamannahreppi”.  Tveir valinkunnir sveitarstjórnarmenn, þau Sigurður Þorsteinsson á Heiði og Þuríður Sigurðardóttir í Vegatungu, voru kvaddir til að koma þessu í kring.

Þau boðuðu til fundar í Aratungu sunnudaginn 17. febrúar og komu á hann 24 menn af báðum kynjum.  Miklar umræður fóru fram um hvers konar félag skyldi stofna, en flestir voru þeirrar skoðunar að stofna skyldi slysavarnadeild til að vinna fyrirbyggjandi slysavarnastarf jafnframt björgunarstarfi.  Niðurstaða var að fela þremur mönnum að hafa samráð við fulltrúa Slysavarnafélags Íslands um stofnum slysvarnadeildar og eða björgunarsveitar hér í sveit.  Til þessa verks voru valdir Björn B. Jónsson á Stöllum, Karl Jónsson í Gýgjarhólskoti og Gunnar Guðjónsson á Tjörn.

Að tæpum þrem vikum liðnum, laugardaginn 9. mars, boðar undirbúningsnefndin til stofnfundar í Aratungu.  Gestir á fundinum voru Haraldur Henrysson, forseti Slysavarnarfélags Íslands, Jón Wium erindreki þess og Ólafur Íshólm á Selfossi.  Snemma fundar var samþykkt “með atkvæðum allra fundarmanna” að stofna bæði slysavarnadeild og slysavarnasveit .  Deilt var um nokkur atriði í samþykktum, m. a. nafn deildarinnar.  Þrjú komu til álita; Slysavarnafélag Biskupstungna, Slysavarnadeildin Narfi, og var það rökstutt með því að maður með þessu nafni hefði verið eitt mesta hraustmanni, sem hér færu sögur af, en hann var bóndi á Brú um miðja 19. öld og hafði legið í gröf sinni 125 ár þegar þessi hugmynd kom fram, og í þriðja lagi Slysavarnadeild Biskupstungna, og var það að lokum samþykkt samhljóða.  Helsta breytingin á þeim drögum að lögum fyrir deildina, sem lögð voru fram, var að fella burt ákvæði um að “deildin skyldi vera óháð kynskiptingu fólks”, þar sem tekið var fram að allir geti orðið félagar.  Nokkuð var deilt um tilhögun á kosningu stjórnar, en samþykkt var að formaður skyldi kosinn sér.  Koning formanns var skrifleg og hlutu 12 atkvæði, en Sigurjón Kristinsson í Vegatungu hlaut flest og því kjörinn.  Meðstjórnendur voru kjörnir samkvæmt uppástungu; Loftur Jónasson á Kjóastöðum og Páll M. Skúlason í Kvistholti.  Á sama hátt var Erlendur Gíslason í Bergholti kosinn varamaður, en hann var þá fullra 77 ára.  Í ávarpi forseta Slysavarnafélags Íslands kom fram að þetta væri 96. deildin innan Slysavarnafélagsins.

Á sama fundi var Slysavarnasveit Biskupstungna stofnuð, starfsreglur hennar samþykktar, Guðni Lýðsson á Gýgjarhóli kosinn formaður og Páll Óskarsson í Brekkuskógi varaformaður.

Á fundinum voru skráðir 50 félagar í Slysavarnadeildina, en það var um tíundi hluti íbúa í hreppnum, og í Slysavarnadeildina voru skráðir 28 félagar.  Félagsgjald var ákveðið kr. 400,- fyrir fullorðna en kr. 200,- fyrir yngri en 12 ára og ævifélagsgjald kr. 1.500,-.

Kvenfélag Biskupstungna gæddi fundarfólki á kaffi og kruðeríi.  Til þeirra orti Jón Karlsson í Gýgjarhólskoti:

                                Kaffið fór í kroppinn inn,

                                kætti okkar sinni.

                                Fyrir þetta klappp á kinn

                                konur eiga inni.

Ekki fer neinum sögum af hvort kvenfélagskonur hafa tekið út þessa inneign sína.

Í fundargerð frá stjórnarfundi, sem haldinn var skömmu eftir aðalfund, kemur fram að helsta verkefni stjórnar er að leggja línur um starf deildarinnar, og er þar greint frá því að hún eigi 200 kg af ýsu, sem enn er í sjó.  Síðar er greint frá því að ágóði af fisksölu var 17 þúsund krónur.  Þetta mun ekki hafa verið varanlegur kvóti, og eru tekjur af fisksölu ekki þáttur í fjáröflun sveitarinnar síðan.

Aðalfundur Slysavarnadeildar og –sveitar var haldinn í byrjun apríl árið eftir stofnun.  Þá höfðu innheimst árgjöld af 84 félögum, en tekjur voru alls rúmlega 125 þúsundir króna.  Keyptur hafði verið nokkur búnaður, svo sem leitarljós, sjúkrabörur, snjóleitarstangir, teppi og sjúkrataska.  Námskeið voru haldin í fyrstu hjálp og notkun áttavita.  Formaður var endurkjörinn með meira en þrefalt fleiri akvæðum en í upphafi, en meðstjórnedur gáfu ekki kost á endurkjöri og í þeirra stað voru kjörin þau Gunnar Guðjónsson á Tjörn og Helga Karlsdóttir á Gýgjarhóli.  Formaður lætur í ljós það álit sitt að næsta stórverkefni sé að kaupa vélsleða.

Í fundargerð aðalfundar Slysavarnasveitarinna er sagt frá að 13 félagar höfðu farið á samæfingu í Ölfusi, tekið hafði verið þátt íleit með Þingvallavatni og smalað bæði Hagafell og Haukdalsheiði.  Guðni Lýðsson var endurkjörinn formaður, en varaformaður gaf ekki kost á sér til endurkjörs og var Haraldur Kristjánsson í Einholti kjörinn í hans stað.

Á næsta aðalfundi Slysavarnadeildarinnar, 3. maí 1987, er greint frá tækjakaupum.  Þá er búið að kaupa vélsleða, öryggishjálma og tvær talstöðvar og að auki fengið eina frá Slysavarnafélagi Íslands.  Formaður er endurkjörinn, en meðstjórnendur skorast undan endurkjöri og eru þeir Svavar Sveinsson á Drumboddsstöum og Karl Jónsson í Gýgjarhólskoti kjörnir í þeirra stað. 

Hjá Slysavarnasveitinni hafði það helst borið til tíðinda á starfsárinu 1986 – 1987 að þeir leituðu að rjúpnaskyttu í október og vélsleðamanni í mars.  Fjórar áttavita- og leitaræfingar voru haldnar og gerður var “óformlegur samanburður á vélsleðum, fjórhjóladrifnu fjórhjóli og fjórhjóladrifnum dráttarvélum.”  Ekki kemur fram í fundargerð hvert þessara tækja reyndist best. 

Aðalfundur 1988 er haldinn snemma í apríl, og þar er frá því greint að keypt hafði verið efni í vélsleðakerru, sem fjórir félagar smíðuð.  Stjórnin var endurkjörin og einnig endurskoðendur, fulltrúi á aðalfund Slysavarnaféalgs Íslands og fjáröflunarnefnd eins og árin á undan.  Á þessum fundi er farið að ræða um húsbyggingu og kosin húsbygginganefnd , “sem er falið að athuga með væntanlega húsbyggingu”, eins og segir í fundargerð.

Á aðalfundi Slysavarnasveitarinnar 1989 er upplýst að einn félagi hafði fengið kennsluréttindi í fjarskiptum og annar í leit og rötun.  Engin bylting varð í kosningum á þessum fundi og nú var kosið í æfinga- og námskeiðsnefnd.

Næsta ár var það helst til tíðinda á aðalfundi Slysavarnasvdeildarnnar að húsbyggingarnefnd hafði gert kostnaðaráætlun um efni í 120 fermetra skemmu upp á 700 þúsund krónur og árgjöld voru tvöfölduð. 

Hjá Slysavarnasveitinni höfðu verið námskeið, æfingar og útköll.

Allt er þetta með svipuðum hætti árið 1990, en á aðalfundi Slysavarnasveitarinnar það ár gefur formaður ekki kost á endurkjöri, og er Guðjón Rúnar Guðjónsson í Miðholti kjörinn í hans stað.

Í ársbyrjun 1991 ber það við á stjórnarfundi að formaður deildarinnar, sem gegnt hafði því starfi í nær 6 ár, skýrir frá því að hann segir af sér. Á aðalfundi, sem haldinn er 19. febrúar, er lagt fram bréf frá honum.  Greinir hann þar frá ástæðum þess, og eru þær:

1.     Ekki tekið mark á vilja formanns, svo sem í innheimtu árgjalda og fleiru.

2.     Nefndir hafa ekki samráð við stjórn.

3.     Formaður rekinn út af fundi vegna raunsæar afstöðu varðandi áramótagleði.

4.     Það virðist svo sem formenn séu orðnir of margir í félagsskapnum og því nauðsyn að ég víki.

Jafnframt segir hann sig úr félaginu frá og með 15. janúar 1991.

Þetta undirritar Sigurjón Kristinsson 13. janúar 1991.

Annar meðstjórnenda, Svavar Sveinsson, hafði gegnt störfum formanns síðasta mánuðinn, og gengu störf aðalfundar fyrir sig með eðlilegum hætti.  Arnór Karlsson var kosinn formaður, en hann hafði komið inn í stjórnina sem varamaður við brotthvarf formanns.

Á jólaföstu 1991 er haldinn svonefndur haustfundur.  Þar er skýrt frá starfi fjáröflunarnefndar, og sýnir að þá er farið að vinna árangursríkt starf, sem síðan hefur haldist.  Bókað er að fjáröflunin hafi falist í “blómasölu, rifin hlaða í Kjarnholtum, söfnun dósa, gæsla fyrir varnarliðið við heræfingar og gæsla á Geysissvæðinu, þegar gos var.”  Alls höfðu safnast næstum 400 þúsund krónur.  Skýrt er frá því að þá um haustið hafi verið keyptur bíll af gerðinni Bens Unimog á 350 þúsund krónur. Óánægjuraddir heyrðust vegna þess að ekki hefði veri kallaður saman félagsfundur til að taka ákvörðun um bílkaupin.  Ekki var þó bíllinn sá tilbúinn til björgunarstarfa, því fram kemur á aðlfundi um vorið að “nokkuð vantar á að hann sé kominn í gang.”, eins og það er orðað.  Hann komst brátt í gang og þjónaði sínu hlutverki í nokkur ár.  Bíll þessi er til sýnis hér fyrir utan.

Aðalfundur deildarinnar var haldinn í maí 1992, og þá er búið að kaupa í samstarfi við Biskupstungnahrepp burðarsperrur og klæðningu á um 480 fermetra hús.  Samþykkt var að deildin eignist um 135 fermetra af þessu húsi, en gert verði ráð fyrir að unnt verði að stækka það um 50 % seinna.

Á þessum fundi var Svavar Sveinsson kosinn formaður og meðstjórnendur Ólafur Ásbjörnsson og Þórarinn Þorfinnnsson.  Á aðalfundi Slysavarnasveitarinnar, sem haldinn var um leið, sagði formaður af sér og var Hjalti Ragnarsson í Ásakoti kosinn í hans stað.

Enn er skipt um formann Slysavarnadeildarinnar á aðalfundi árið eftir (1993), og er Jakob Narfi Hjaltason í Laugagerði kosinn.

Á aðalfundi 1994 er samþykkt lagabreyting í þá veru að stjórn skuli kosinn til tveggja ára á þann veg að formaður er kosinn annað árið en ritari og gjaldkeri hitt.  Er sú skipan enn við líði. 

Um þessar mundir er dósasöfnunin svonefnda orðin besta fjáröflunarleiðin, og hefur bjór, vín og öldrykkja heimamanna og gesta hér í sveit veitt miklu fé til björgunarstarfins á liðnum áratug.  Smíðaðir voru söfnunarkassar og þeim komið fyrir hér og hvar í sveitinni.  Ekki hafa verið eingöngu áldósir og flöskur í kössunum, stundum allkonar rusl og sorp, og einu sinni var fullfrískur maður í einum kassanna.  Hafði hann ætlað að hirða dósi en var svo óheppinn að söfnunarmenn bar þar að í sömu mund. 

Þegar hér er komið sögu er farið að festa verulegt fé í húsbyggingu, og fyrir 10 árum hefur verið varið til þess rúmum 2 milljónum og 700 þúsund krónum, og árið eftir er frá því greint á aðalfundi að Slysavarnafélag Íslands hafi veitt til byggingarinnar kr. 500.000,- og hreppsnefnd samþykkt að veita til félagsins 200.000 krónur.

Aðalfundur Slysavarnasveitarinnar er jafnan haldinn í framhaldi að aðalfundi Slysavarnasdeildarinnar, og á slíkum fundi 1995 er Ingvi Þorfinnsson á Spóastöðum kosinn formaður “Sveitarinnar” eins og Slysavarnasveitin var oft nefnd, en oft gekk illa að gera í fljótu bragði greinarmun á þessum tveimur nátengdu stofnunum með svo lík nöfn.

Tímamót eru í sögu félagsins vorið 1996.  Þá er aðalfundur “deildar” og “sveitar” haldinn í húsi félagsins í fyrsta skipti 31. mars, en í júní var landsþing Slysavarnafélags Íslands haldið að Laugarvatni.  Þingið var sett í Skálholtskirkju og eftir setningarathöfnina var kvöldverður á Hótel Geysi.  Nú vildi svo vel til að við brún vegarins þarna á milli stóð nokkurn vegin tilbúið björgunarsveitarhús að Dalbrúnarvegi 1.  Því þótti tilvalið að fá gesti til að koma þar við.  Húsið hlaut þá blessun vígslubiskups, Sigurðar Sigurðarsonar, og forseti Slysavarnafélagsins, Einar Sigurjónsson, afhenti formanni Slysavarnadeildarinnar lykla hússins og eins og greint er frá þessu í fundargerð aðalfundar árið eftir “fól honum það til afnota að viðstöddum forseta Íslands, frú Vigdísi Finnbogadóttur, vígslubiskup og fjölda landsþingsfulltrúa.”  Í tilefni af húsvígslunni færði Slysavarnafélagið deildinni talstöð að gjöf og Slysavarnadeildin Tryggvi á Selfossi tvö leitarljós, og tveir félagar, Guðni Lýðsson og Loftur Jónasson voru sæmdir gullmerki Slysavarnafélagsins á landsþinginu á Laugasrvatni.

Á aðlfund Slysavarnasveitarinnar 1996 mæta 13 félagsmenn og að auki hundurinn Rex, sem eigandi hans; Magnús Skúlason í Hveratúni, er farinn að þjálfa sem leitarhund.  Hélt hann því starfi áfram næstu ár og tóku þeir þátt í ýmsum leitum.

Skipt var um formann Slysavarandeildarinnar í maí 1997, og tekur Loftur Jónasson á Kjóastöðum 2 við því starfi.

Aðalfundur Slysavarnadeildarinnar var á svipuðum tíma árið eftir (1998).  Laganefnd, sem kjörin hafði verið árið áður, lagði þar fram tillögu að nýjum lögum.  Þar er félagsskapurinn nefndur Slysavarnafélag Biskupstungna, en því er breytt í Björgunarsveit Biskupstungna á aðalfundi árið eftir, og hefur það nafn verið notað heima fyrir síðan, en einhverjir erfiðleikar verið á að innleiða það í opinberri skráningu.  Róttækasta breytingin, sem þarna var gerð, var að sama félagið taki yfir bæði slysavarna- og björgunarstarf, en Slysavarnasveitin verði lögð niður, en stjórnarmönnum fjölgað í fimm.  Gert var fundarhlé á meðan Slysavarnasveitin hélt aðalfund sinn, og var þar samþykkt að leggja hana niður.  Með þessum breytingum var ætlað að einfalda félagsstarfið.

Í byrjun mars 1999 er á félagsfundi farið að ræða um kaup á nýjum bíl og samþykkt að selja þann gamla.  Síðar í mánuðinum er samþykkt á aðalfundi að fela stjórn félasins að kaupa Toyota Landcruiser 90 björgunarbifreið, og er áætlað verð henar 3 milljónir króna, og ári síðar kemur fram að endanlegt verð var um 5 % umfram þá áætlun.  Snorri Geir Guðjónsson á Tjörn er kosinn formaður á þessum fundi.

Árið eftir er tækjakostur Björgunarsveitarinna styrktur með því að kaupa tvo vélsleða en selja þann gamla.  Kostnaður við það var rúmlega 1,1 milljón króna.  Mestum hluta fjárins til þessa er aflað með sjálfboðavinnu og höfðu tekjur af “dósasölu”, þ. e. það sem fæst fyrir öldósir og flöskur úr söfnunarkössum félagsins. 

Í krafti tekna af slíku starfi var samþykkt á aðalfundi fyrir tæpu ári að heimila stjórninni að endunýja bíl sveitarinnar, “ef hún telur fjárhagslegan grundvöll fyrir því”, og mælti fundurinn með 7 manna Patrol á 44 tomma dekkjum.  Niðurstaða þessa verður kynnt hér á eftir.

Á þessum sama fundi er Helgi Guðmundsson í Hrosshaga kosinn formaður, og er hann sá 7., sem því starfi gegnir í þessi 20 ár auk þeirra fjögurra, sem voru formenn Björgunarsveitarinnar.  Jafnan hafa formennirnir verið valdir í skriflegri, leynilegri kosningu.  Tugir fólks hafa gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagið svo sem ritari, gjaldkeri, meðstjórnendur, skoðunarmenn, tækjaverðir, fulltrúar í Svæðissjórn, fjáröflunarnefnd, húsbyggingarnefnd, þjóðhátíðarnefnd og ýmsu öðru.  Segja má að grunninn að starfi félagsins leggi þeir sem afla fjár til starfseminnar með ýmiskonar sjálfboðavinnu.  Hún hefur verið mjög umfangsmikil síðustu ár.  Ber þar hæst, ef miðað er við afrakstur, söfnun og flokkun drykkjarumbúða, sem skilaði rúmri milljón í félagssjóð á síðasta ári.  En þetta er ekki það eina.  Unnið hefur verið við að rífa aflögð hús, taka upp girðingar, sem ekki þjónuðu tilgangi, þökur hafa verið lagðar á moldarfleti, vísun í bílastæði bæði við kirkjur og réttir, bílar dregnir á fast, kindum komið til byggða og ýmislegt fleira.  Flest af þessu greiða þiggjendur þjónustunnar nokkuð fyrir en félagar fá aldrei neitt sjálfir fyrir sína vinnu, en laun þeirra eru að leggja þörfu málefni lið og sjá Björgunarsveitina eignast gott húsnæði og gagnleg björgunartæki.  Einnig var öll vinna ólaunuð við byggingu Björgunarsveitarhússins og frágang þess, svo og við smíði ýmissra tækja og búnaðar, svo sem vélsleðakerrunnar og flokkunarbúnað drykkjarumbúða.  

En starf Björgunarsveitarinnar felst í fleiru.  Á hverju ári er farið með æskufólk til fjalla, því gefinn áttaviti og kennt að nota hann, námskeið eru haldin í rötun, fyrstu hjálp og ýmsu fleiru, komið er saman eitt kvöld í hverri viku nema á hásumri hér í húsinu til að vinna verk sem kalla að og ræða um félags- og björgunarstarfið.  Í byrjun hvers vetrar er haldin árshátíð þar sem félögum gefst færi á að sletta aðeins úr klaufunum, og var það síðast í samvinnu við björgunarsveitirnar í nágrenninu hér fyrir vestan, í Laugardal, Grímsnesi og Grafningi.  Er það einn liður í vaxandi samstarfi þessara félaga.

Allt á þetta að leiða til öflugs slysavarna- og björgunarstarfs hér í sveit og hvar sem félagar í Björgunarsveit Biskupstungna fá tækifæri til að leggja þeim málum lið.

Arnór Karlsson.


Home | Um Björgunarsveitina | Dósadagatal 2009 | Útköll Sveitarinnar | Myndasíða | Félagatal | Unglingadeildin Greipur | Gestabók | Tenglar | Hafið samband

Vinsamlegast sendið ábendingar varðandi heimasíðuna á dreso@internet.is
Þessi síða var uppfærð síðast: 22-jan.-2009.